Kortaþjónustan var formlega stofnuð í júní 2002 en undirbúningur að stofnun stóð í nokkur misseri. Stofnendur voru aðilar sem höfðu tengst debet- og kreditkortaþjónustu allt frá upphafi þeirrar þjónustu hér á landi.

Tilgangur Kortaþjónustunnar hefur frá upphafi verið að bjóða fyrirtækjum í kortaviðskiptum upp á leiðir til að öðlast hraðari aðgang að fjármunum sínum í kjölfar kortaviðskipta. Þegar Kortaþjónustan hóf að bjóða upp á örari uppgjör en áður höfðu tíðkast náðu söluaðilar fyrirtækja, þá sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja, fram miklum umbótum og hagræðingu í rekstrarumhverfi sínu. 

Samkeppnislagabrot gegn Kortaþjónustunni

Fyrir árið 2002 höfðu kortafyrirtækin sem fyrir voru á markaðnum haldið uppi verði í krafti einokunarstöðu sinnar. Um leið og Kortaþjónustan hóf starfsemi vógu keppinautarnir að fyrirtækinu með ólöglegu samráði sem bola átti Kortaþjónustunni af markaði. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði og voru staðnir að verki árið 2006 þegar Samkeppniseftirlitið framkvæmdi húsleitir hjá Valitor, Borgun og Greiðsluveitunni. Í ljós komu sannanir fyrir alvarlegum samkeppnislagabrotum gegn Kortaþjónustunni sem leiddu til þess að fyrirtækin gerðu dómssátt við Samkeppniseftirlitið.

Alls greiddu fyrirtækin 735 milljónir í sektir fyrir samráðið sem gerði Kortasamráðið, eins og málið hefur verið kallað, að stærsta viðurkennda samkeppnislagabroti Íslandssögunnar. Kortaþjónustan hefur sagt sína hlið þessa máls og birt öll skjöl þess á vefnum www.kortasamrad.is. Þar má einnig finna upplýsingar um tvö önnur mál til viðbótar þar sem kortafyrirtæki og þrír stærstu bankar landsins hafa brotið samkeppnislög til að klekkja á Kortaþjónustunni. Samtals nema sektir í þessum þremur málum 2.855 milljónum króna.

Kortaþjónustan hefur hins vegar staðið af sér þessa ágjöf og berst áfram fyrir alvöru samkeppni í greiðslukortaviðskiptum á Íslandi.

Bætt kjör og aukin þjónusta við viðskiptavini

Kortaþjónustan varð sjálfstæður færsluhirðir árið 2013, en áður hafði það starfað með danska fyrirtækinu Teller. Fyrirtækið fékk leyfi sem greiðslustofnun frá FME 2012, í samræmi við nýsamþykkt lög um greiðsluþjónustu. Í kjölfarið varð Kortaþjónustan fullgildur aðili að VISA Europe og MasterCard International. 

Þessar breytingar juku samkeppnishæfni Kortaþjónustunnar enn frekar og fjölgaði viðskiptavinum umtalsvert. Í kjölfar breytinganna tók félagið upp nýtt nafn og nýja ásýnd vorið 2015 og heitir eftir það KORTA.

Gildi KORTA eru: Gleði - Fagmennska - Virðing